25. apríl, er alþjóðlegur dagur vitundarvakningar um foreldraútilokun. Foreldraútilokun á sér stað þegar barn hafnar foreldri sem það átti áður gott samband við, vegna neikvæðra áhrifa hins foreldrisins. Mikilvægt er að gera greinarmun foreldraútilokun annars vegar og þegar barn verður fráhverft foreldri sínu vegna raunverulegs ofbeldis, vanrækslu eða misnotkunar foreldris hins vegar.
Foreldraútilokun á sér yfirleitt stað í kjölfar skilnaðar foreldra þar sem viðhorfum barnsins er stýrt og það fær svart/hvíta sýn á útilokaða foreldrið sem það sér að mestu í neikvæðu ljósi. Með foreldraútilokun er barninu – án raunverulegrar ástæðu – innrætt sú trú/skoðun að útilokaða foreldrið sé hættulegt og óverðugt. Þetta er ekki aðeins skaðlegt vegna þess tengslarofs og missis sem barnið verður fyrir, heldur einnig vegna þess skaða sem innrætingin hefur á sjálfsmynd barnsins.
Miklar rannsóknir hafa átt sér stað á foreldrútilokun síðustu ár og yfir eitt þúsund ritrýndar fræðigreinar hafa verið birtar síðustu áratugi um þetta alvarlega ofbeldi. Sýnt hefur verið fram á hvernig foreldraútilokun fellur undir skilgreiningar um ofbeldi í nánum samböndum og einnig hefur verið bent á áberandi líkindi með foreldraútilokun og innrætingu í sértrúarsöfnuðum. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þessi tegund ofbeldis er ekki bundin við kyn og mynstrin erfast gjarnan á milli kynslóða. Afleiðingarnar eru alvarlegar og langvarandi fyrir þolendur, bæði börn og útilokaða foreldra, ömmur og afa.
Í tilefni af þessum degi birtir Foreldrajafnrétti raunveruleg dæmi á YouTube um þær ástæður sem börn gefa fyrir því að hafna foreldri sínu. Hvert dæmi er skoðað út frá vísindalega viðurkenndum greiningartólum sem gefa vísbendingar um hvort barn er beitt foreldraútilokun eða ekki.
„Mamma hefur aldrei hugsað um mig. Hún var ekki einu sinni á spítalanum þegar ég fæddist.”
Falskar minningar/lánaðar aðstæður. Heili barna hefur ekki þroska til að muna atburði frá fæðingu en hér hefur barninu verið talið trú um eitthvað sem augljóslega er ekki satt.
„Ég vil ekki hitta pabba. Hann setur avókadó á brauðið mitt.“
Veikar og fáránlegar ástæður fyrir því að hafna foreldri. Sektarkennd ekki til staðar.
„Ég vil ekki fara til pabba, því þá verður mamma svo leið“
Sjálfvirkur stuðningur við útilokunarforeldrið. Einnig tilfinningaleg klessutengsl þar sem barnið er dregið inn í tilfinningalíf útilokunarforeldrisins.
„Ég sakna pabba, en mamma segir að hann sé kominn með nýja fjölskyldu og elski mig ekki lengur.“
Barnið er dregið inn í heim fullorðinna og útilokaða foreldrið málað upp sem óelskandi.
„Hann er sko ólíkindatól – og svo er hann ekki móttækilegur fyrir gagnrýni.“
Hér eru nokkrir þættir að verki þar sem barninu hefur verið blandað inn í neikvætt umtal um hitt foreldrið, ólíkindatól er ekki orð sem börn almennt þekkja eða skilja. Ástæðan er veik fyrir höfnuninni.
„Ég þarf ekkert á mömmu að halda.“
Hér hefur barnið réttlætt tengslarof við foreldrið. Það orsakar klofning á sambandi við það foreldri og klofning á sjálfi barnsins sem er því mjög skaðlegt. Engin sektarkennd er til staðar gagnvart útilokaða foreldrinu.
Þetta eru nokkrar birtingamyndir foreldraútilokunar en til að greina hvert tilvik fyrir sig þarf sérfræðiþekkingu þar sem heildarmyndin er skoðuð af sérfræðingum á þessu sviði.
Þekking á foreldraútilokun er því miður mjög lítil hér á landi enn sem komið er og umræðan er oft fordómafull og kynbundin. Eina leiðin til að bæta úr þessu er að hvetja til umræðu sem byggir á staðreyndum og vísindalegum grunni.
Foreldrajafnrétti hvetur fagaðila og þá sem koma að foreldraútilokunarmálum til þess að uppfæra þekkingu sína og sækja sér sérfræðiþekkingu í foreldraútilokun. Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi og röng greining er þeim afar skaðleg, bæði andlega og líkamlega og afleiðingarnar geta lifað með þeim út lífið.
Greingartól á foreldraútilokun:
Fjöldi vísindalega viðurkenndra greiningartóla um foreldraútilokun hafa verið þróuð á síðustu áratugum. Að minnsta kosti 15 mismunandi vísindalega viðurkennd greiningartæki eru notuð víða um heim, en það virtasta og mest notaða er Fimm þátta líkan William Bernet, Amy Baker og Philip Koszyk. Það byggir á þeim forsendum að barnið hafni samskiptum við útilokaða foreldrið, að áður hafi ástríkt samband verið til staðar, að ekki sé til staðar ofbeldi, mistnotkun eða vanræksla af hálfu útilokaða foreldrisins, að foreldrið noti mörg þeirra 17 aðferða sem útilokunarforeldri nota og að barnið sýni nokkur 8 einkenna barna í útilokunarmynstrum.
Fimm þátta módelið hjálpar fagaðilum að greina á milli foreldraútilokunar og fráhverfu þar sem barn hafnar foreldri vegna réttmætra ástæðna á borð við ofbeldi, vanrækslu eða misnotkun.
Átta einkenni í barni:
17 aðferðir foreldris:
Fimm þátta líkanið:
Önnur viðurkennd greiningartæki:
Foreldrajafnrétti
www.foreldrajafnrétti.is
Hafðu samband:
foreldrajafnretti@foreldrajafnretti.is
Sími:
419 6000
© Foreldrajafnrétti, allur réttur áskilinn