logo

Lög Foreldrajafnréttis

Print Friendly, PDF & Email

1. gr. Nafn

  • Félagið heitir „Foreldrajafnrétti“. Áherslur félagsins lúta að réttindum barna til að þekkja og umgangast báða foreldra sína í samræmi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Enskt heiti félagsins er: „Equal Parenting Iceland“.

2. gr. Tilgangur

  • Félagið er mannréttindafélag sem stendur fyrir rétti barna til beggja foreldra sinna og jöfnum rétti foreldra til að sinna foreldrahlutverki sínu óháð fjölskyldugerð. Félagið vill stuðla að málefnalegri og upplýstri umræðu um stöðu barna og foreldra, á þann hátt að löggjafinn, framkvæmda- og dómsvaldið tryggi börnum að sú meginregla Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska.

3. gr. Félagsaðild

  • Félagsaðild er opin öllum einstaklingum. Til þess að gerast félagi þarf að skrá sig á heimasíðu félagsins og greiða uppsett félagsgjald. Félagsaðild er virk út starfsár félagsins sbr. 4. gr.

4. gr. Aðalfundur

  • Aðalfundur fer með æðsta vald félagsins. Aðalfundur skal að jafnaði haldinn í febrúar ár hvert og boðað skal til hans með sannanlegum hætti með auglýsingu á heimasíðu félagsins og tengdum samfélagsmiðlum að minnsta kosti tveimur vikum fyrir fund.
  • Aðalfundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður. Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða og fylgir eitt atkvæði hverjum félagsaðila sem greitt hefur félagsgjöld fyrir liðið starfsár.
  • Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
    1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
    2. Skýrsla stjórnar lögð fram
    3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
    4. Lagabreytingar
    5. Ákvörðun félagsgjalds
    6. Kosning stjórnar
    7. Kosning endurskoðanda eða skoðunarmanns
    8. Skipun fulltrúaráðs
    9. Önnur mál
  • Starfsár félagsins miðast við almanaksár.
  • Aðalfundur velur stjórn félagsins með leynilegri kosningu.
  • Kjörgengir til stjórnar eru félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald og verið hafa félagsmenn í a.m.k. tvö ár og starfað í fulltrúaráði í eitt ár er boðað er til aðalfundar.
  • Fráfarandi stjórn skipar kjörnefnd.
  • Þeir sem vilja gefa kost á sér í stjórn skulu tilkynna það kjörnefnd með skriflegum hætti að minnsta kosti 10 dögum fyrir aðalfund. Hlutverk kjörnefndar er að athuga kjörgengi frambjóðenda og að stilla upp lista stjórnarmanna til samþykktar á aðalfundi.

5. gr. Stjórn

  • Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda.
  • Stjórn félagsins hefur heimild til að skuldbinda félagið.
  • Stjórnarformaður og gjaldkeri rita firma.
  • Stjórn félagsins skal skipuð fimm til sjö fulltrúum og einum til fimm til vara.
  • Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Formaður boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar. Sama rétt á framkvæmdastjóri ef ráðinn verður.
  • Boða skal aðal- og varamenn stjórnar til stjórnarfunda með tryggilegum hætti. Í fundarboði skal fylgja dagskrá fundar. Formaður stýrir stjórnarfundum. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.
  • Stjórnarfundur er ályktunarfær ef fjórir stjórnarmenn hið fæsta, sækja fundinn. Sjö fundarmenn í það mesta hafa atkvæðisrétt á stjórnarfundi. Séu fundarmenn fleiri er valið af handahófi úr varamönnum sem munu hafa atkvæðisrétt. Meirihluti fundarmanna hefur úrskurðarvald á stjórnarfundi.
  • Reikningar félagsins skulu samþykktir af stjórn félagsins og félagslegum skoðunarmanni.
  • Fulltrúaráð mun taka virkan þátt í starfi félagsins og vera stjórn félagsins til aðstoðar.
  • Stjórn getur skipað viðbótar fulltrúum í eða vísað fulltrúum úr fulltrúaráði á stjórnarfundi.

6. gr. Aukaaðalfundur

  • Heimilt er að boða til aukaaðalfundar ef sérstakar aðstæður koma upp. Til að boða til aukaaðalfundar verða a.m.k. fimm stjórnarmenn að samþykkja tillögu þess efnis. Um boðun slíks fundar gilda sömu reglur og við boðun aðalfundar. Í fundarboðinu skal koma fram hvað gera skuli á aukaaðalfundi og takmarkast valdsvið fundarins við auglýsta dagskrá.

7. gr. Rekstrarafgangur

  • Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til þess að stuðla að málefnalegri og upplýstri umræðu í samræmi við tilgang félagsins.

8. gr. Félagsslit

  • Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með samþykki 9/10 hluta atkvæða og renna eignir þess til Barnaheilla, félags, kt. 521089-1059 eða sambærilegs félags sem berst fyrir réttindum barna. Verði félaginu hins vegar breytt í sjálfseignarstofnun skulu allar eignir félagsins renna til hennar. Tillaga um félagsslit verður að koma fram í fundarboði.

9. gr. Lagabreytingar

  • Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi enda skal lagabreytinga getið í fundarboði. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnarinnar eigi síðar en 20 dögum fyrir aðalfund. Til breytinga á félagslögum þarf samþykki 3/4 hluta fundarmanna.

Lög þessi voru síðast samþykkt á aðalfundi félagsins.

Dagsetning: 18. febrúar 2023

Lög félagsins voru fyrst samþykkt á stofnfundi félagsins þann 10. september 1997. Þá hafa lögin tekið breytingum á aðalfundum 30. september 1998, 27. september 2000, 4. október 2003, 25.september 2004, 28. september 2006, 4. október 2007, 8. október 2009, 27. október 2011, 16. nóvember 2016, 26. september 2017, 22. september 2020, 1. október 2021 og 18. febrúar 2023.