logo

2023-10-09 | Erindi formanns Foreldrajafnréttis á morgunverðarfundi Velferðarvaktarinnar um hagi umgengnisforeldra

Lykilorð

Hæstvirtir ráðherrar dómsmála, félags og vinnumarkaðsmála, fundarstjóri og góðir gestir!

Ég vil byrja á að þakka Guðmundi Inga Guðbrandssyni, Félags- og vinnumarkaðsráðherra og Siv Friðleifsdóttur, formanni velferðarvaktarinnar fyrir að hafa látið framkvæma þessa könnun. Ég vil einnig þakka Steinunni Bergmann formanni Félagsráðgjafafélagsins fyrir að hafa verið hvatakona og hugmyndasmiður að þessu verkefni.

Svo vil ég miklum hlýhug minnast Heimis Hilmarssonar, félagsráðgjafa barnaverndarstarfsmanni og fyrrum formanns Foreldrajafnréttis. Heimir lést um aldur fram eftir erfið veikindi snemma á árinu stuttu eftir að hann hafði lagt mikla vinnu í endanlegan spurningalista sem könnunin byggir á. Heimir á heiðurinn að vísindarannsókn á stöðu umgengnisforeldra í meistararitgerð sinni í Félagsráðgjöf árið 2014 sem bar heitið „Reynsla feðra sem ekki deila lögheimili með barni – Þú átt engin börn“. Lokamálsgrein niðurstöðukafla hennar er svohljóðandi:

Niðurstöður sýna að feðurnir hafa þá reynslu að kerfið gerir ráð fyrir því að lögheimili barna sé hjá móður og faðir greiði meðlag, annað fyrirkomulag sé ekki í boði. Þeir upplifa sterkt að kerfið geri ekki ráð fyrir barni á heimili feðranna og þrátt fyrir að þeir framfæri börn sín á tveimur heimilum séu þeir ekki viðurkenndir framfærendur barna. Dæmi eru um að þröngur fjárhagur feðranna skerði möguleika þeirra til að annast um börn sín eins og þeir myndu kjósa.

Varðandi könnunina sjálfa þá er mikilvægt að því sé haldið til haga að 25% af svörunum í könnuninni byggja á svörum vegna barna sem eru með lögheimili hjá umgengnisforeldrum, þ.e. nýjum börnum þeirra með nýjum maka. Með réttu hefði átt að undanskilja þessi svör til að fá rétta mynd af stöðu umgengnisforeldra gagnvart börnum sem ekki eiga lögheimili hjá þeim. Þetta þýðir að staðan er enn verri en skýrslan gefur til kynna. Félagsvísindastofnun er meðvituð um þessa skekkju og von er á leiðréttingu.

Fyrir umgengnisforeldra, helstu skjólstæðinga Foreldrajafnréttis, er þessi könnun gríðarlega mikilvægt skref í þá átt að staðfesta ójafna stöðu þeirra gagnvart lögheimilisforeldrum og með henni vaknar von um að aðstöðumunurinn verði leiðréttur. Umgengnisforeldrar eru stór hópur enda algengt á Íslandi að fólk slíti samvistum eftir að hafa eignast börn.

Eftir slit á samvistum tekur við kerfi sem mismunar foreldrum verulega og þá endar stór hópur umgengnisforeldra í miklum fjárhagslegum og félagslegum erfiðleikum. Það er erfitt að ná til þess hóps sem verst stendur enda náðist ekki að koma bréfi á 10% þeirra sem reynt var að hafa samband við og um fjórðungur þess hóps er ekki með skráð heimilisfang í þjóðskrá. Hér er um að ræða foreldra sem hverfa af vinnumarkaði, veikjast, fara á örorku, missa fótanna fjárhagslega og í verstu tilvikunum taka sitt eigið líf.

Fyrsta málsgrein fyrstu greinar laga um jafnan rétt og stöðu kynjanna hefst svo:

Markmið laga þessara er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Á Íslandi hefur náðst eftirtektarverður árangur í að auka jafnrétti og í samfélaginu eru sterk samtök, fræðasamfélög og stjórnmálahreyfingar sem hafa það sem sitt helsta baráttumál að bæta stöðu kvenna.

Hins vegar, hvort sem um er að kenna pólaríseringu í umræðunni eða einhverju öðru, þá hefur ríkt furðuleg þögn um þá staðreynd – að á því sviði samfélagsins – sem snýr að foreldrahlutverkinu og þess að njóta samvista við börnin sín – þar hallar verulega á umgengnisforeldra, sem eru aðallega feður.

Lög um foreldraorlof þar sem feður hafa sjálfstæðan rétt til orlofs hafa skilað frábærum árangri, bæði fyrir konur á vinnumarkaði en ekki síður fyrir feður á dýrmætasta sviði lífsins, eða til að tengjast börnunum sínum betur – og börnunum að tengjast feðrum sínum.

Rannsóknir sýna að rík tengsl barna við feður sína í bernsku hafa áberandi jákvæð áhrif á börn. Minnka geðræn vandamál, skapa meira jafnvægi og tryggja börnunum betri heilsu og lífsgæði til framtíðar.

Þegar foreldrar hafa kost á að axla saman ábyrgð á barnauppeldi og rekstri heimilisins leikur allt í lyndi. Þegar skilnaður verður, vandast málið og þá kemur í ljós hversu ójöfn staða mæðra og feðra er í raun.

Við sjáum það á þessari rannsókn að þrátt fyrir að lögin séu kynhlutlaus, þá fá mæður lögheimili barna við skilnað í langflestum tilfellum þrátt fyrir skilyrði um sáttameðferðir og ráðgjöf sýslumanna við skilnað eða sambúðarslit. Samningarnir sem gengið er frá hjá sýslumanni eru í um 95% tilvika þannig að börnin fá lögheimili hjá móður.

Þetta þurfa sýslumannsembættin og dómsmálaráðherra að skoða, hvort vera kunni að kerfislægir fordómar ráði því að feður fái ekki lögheimili barna sinna nema í undantekningartilfellum. Þess má geta að starfsmenn sýslumannsembætta og ráðuneytis dómsmála í sifjamálum eru í yfirgnæfandi meirihluta konur og svo virðist sem á þessu sviði samfélagsins ríki mikið mæðraveldi.

Við það að feður missa lögheimilið missa þeir um leið öll réttindi til fjárhagslegs stuðnings í foreldrahlutverkinu og réttur þeirra til að taka ákvarðanir um líf barnsins er í raun og sann enginn – nema að móðir sé þeim samþykk.

Sem betur fer sýnir rannsóknin að meirihluti umgengnisforeldra á góð samskipti við lögheimilisforeldri þrátt fyrir þetta valdaójafnvægi og misrétti en oft er það aðeins á yfirborðinu því margir feður vita að sambandið við börnin þeirra, byggir á því að þeir ruggi ekki bátnum.

Mörg okkar þekkja slík dæmi – þar sem börn sem eru viku og viku hjá hvoru foreldri – en faðirinn borgar samt meðlag með börnunum – og móðirin fær auk þess ein barnabætur og annan stuðning vegna stöðu sinnar sem einstætt lögheimilisforeldri.

Sú staða er eins fráleit og hún hljómar. Að sjálfsögðu ætti fjárhagslegur stuðningur hins opinbera að skiptast jafnt milli foreldra sem hafa jafna umgengni og meðlag að falla niður.

Ef litið er til nýlegrar rannsóknar á meðlagskerfum fjölda landa í okkar heimshluta sem birtist í ritrýnda vísindariti háskólans í Cambridge, Social Policy and Society í fyrra, sést að Ísland sker sig úr meðal þjóða með þá staðreynd að ekkert tillit er tekið til umgengni eða forsjár við útreikninga meðlags. Öll önnur ríki, að Eistland frátöldu. taka verulegt tillit til umgengni.

Meistararitgerð Ívars Arnarssonar í lögfræði frá árinu 2019 staðfestir að sama skapi að réttarstaða meðlagsgreiðenda á Íslandi er mun lakari en á öllum norðurlöndunum og meðlagskerfið úrelt í samanburði við þau lönd.

Í frumvarpi að breytingu á barnalögum árið 2019 komu fram tillögur að breytingu á meðlagskerfinu sem hefðu leitt af sér stórfelldar hækkanir á meðlagi undir því yfirskini að taka ætti tillit til umgengni í takt við lög um meðlag í Noregi. Lækkun vegna umgengni var sáralítil og ekkert í líkingu við Norska kerfið og lögin hefði því leitt af sér umtalsverða hækkun meðlags.

Engin áhersla var lögð á að greina raunverulegan kostnað við að framfæra barni eða þann kostnað sem umgengnisforeldri þarf að bera af því að búa barni sínu annað heimili. En stærsti kostnaðarliðurinn við framfærslu barna er húsnæðiskostnaður, og hann er ekki minni á öðru heimili barnsins.

Þá var engin tilraun gerð til þess endurskoða í hvaða tilfellum beri að úrskurða tvöfalt meðlag, en eins og staðan er nú gera leiðbeiningar dómsmálaráðuneytisins ráð fyrir að greitt skuli tvöfalt meðlag með barni þótt tekjur umgengnisforeldris séu langt undir meðallagi og þær taka ekkert tillit til tekna lögheimilisforeldris þrátt fyrir að lögin kveði á um það.

Okkur hjá Foreldrajafnrétti tókst að afstýra þessari breytingu um sinn, en þær standa þó enn til. Þessar hugmyndir verður að leggja til hliðar og endurskoða þess í stað kerfið frá grunni með hagsmuni barna og foreldra að leiðarljósi. Barnabótakerfið þar með talið.

Í dag geta umgengisforeldrar fengið á sig greiðsluskyldu meðlags alveg óháð eigin framfærslugetu og dugi tekjur þeirra ekki fyrir meðlagi, eða falli alveg niður safnast upp meðlagsskuld á dráttarvöxtum sem er innheimt af hörku. Þessi staða skapar óeðlilegan aðstöðumun á milli foreldra og hefur leitt marga foreldra til örorku.

Þessu til stuðnings má sjá að 59% svarenda segjast hafa upplifað mismunun vegna þess að þau deila ekki lögheimili með barninu sínu og hlutfallið fer hækkandi eftir því sem umgengni er minni. Staðreyndir tala sínu máli, foreldrar upplifa mismunun og börn þrífast verr ef umgengni er ekki jöfn.

Enn alvarlegra er hversu hátt hlutfall umgengnisforeldra segjast hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu hins foreldrisins – eða 44% – og í takt við minni umgengni er hlutfallið enn hærra hjá þeim sem ekki deila forsjá eða 71%. Andlegt ofbeldi er oftast nefnt – en líkamlegt ofbeldi á sér einnig stað.

Ljótasta birtingarmynd þessa ofbeldis eru tálmanir. Eða þegar lögheimilisforeldri nýtir sér yfirburðastöðu sína til að koma í veg fyrir umgengni. Alls segjast 27% umgengnisforeldra hafa lent í þessu – og 10% svarenda búa við viðvarandi tálmanir.

Þessi staða er kerfislæg. Nánast öll opinber kerfi, allt frá þjónustu sýslumanna við skilnaðarferlið, meðlagskerfið, barnabótakerfið og barnaverndarkerfið leggjast á sveif með lögheimilisforeldrum gegn umgengnisforeldrum. Kerfinu virðist fyrirmunað að jafna stöðu foreldra eða tryggja hagsmuni barna hvað þetta varðar. Og ef um tálmanir er að ræða bregst kerfið algerlega og aðhefst ekkert.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um alvarleika tálmana og sér í lagi foreldraútilokun, sem er langvinnt ofbeldisferli sem hefur mjög skaðleg áhrif á börn og þar eru alvarlegustu áhrifin tengslarof og sködduð sjálfsmynd. Þeir sem horfðu á Kastljósið s.l. fimmtudag fengu að heyra áhrif tengslarofs beint frá þolendum.

Rannsóknir hafa sýnt að tengslarof og sködduð sjálfsmynd hefur alvarleg og varanleg sálræn og líkamleg áhrif á börn. Áhrifin trufla sálrænt og líkamlegt þroskaferli og skaðinn er varanlegur. Samt sem áður er þetta ofbeldi algengt á Íslandi.

Hér með skora ég því á Guðrúnu Hafsteinsdóttur, ráðherra dómsmála og Guðmund Inga Guðbrandsson, ráðherra félagsmála að taka til hendinni og breyta þessu kerfi. Ég veit fyrir víst að þið fáið góðan stuðning frá barnamálaráðherra til þessara verka. Guðmundur Ingi, þú getur dregið upp úr skúffu þinni nýlegt ákall okkar til þín og Guðrún Hafsteinsdóttir, þú getur boðað okkur á fund til að fara betur yfir málið.

Að lokum vil ég þakka aftur fyrir mig og umbjóðendur okkar.

Stafrænt kennimerki:
Tegund:
Höfundarréttur:
Útgáfudagur:
APA
MLA

Deila grein

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email