Það að syrgja lifandi barn er erfið lífsreynsla fyrir foreldri/systkini og aðra aðstandendur. Þegar foreldri er í þeirri aðstöðu að vera syrgja lifandi barn er það yfirleitt í kjölfar þess að foreldrið hefur verið útilokað af hinu foreldrinu. Þegar um foreldraútilokun er að ræða þá eru systkini barnsins, afar og ömmur, frændur og frænkur útilokaðar líka. Í raun öll fjölskylda útilokaða foreldrisins. Orðið foreldraútilokun er því ekki lýsandi fyrir það ofbeldi sem beitt er. Sjálfur hallast ég að því að skilgreina foreldraútilokun heimilisofbeldi, eða ofbeldi í nánum samböndum. Það má líka færa rök fyrir því að foreldraútilokun beinist mest gagnvart barninu sem verður fyrir foreldraútilokun.
Sorg vegna lifandi barns er flókin og ekki samfélagslega viðurkennd. Útilokaða foreldrið upplifir sorg og missi, eins og barn þess sé látið, horfið. En samfélagið okkar viðurkennir ekki foreldraútilokun. Því upplifir útilokaða foreldrið einnig skömm og sektarkennd í bland við sorgina yfir að missa barnið sitt. Foreldrar sem syrgja lifandi barn bera flestir harm sinn í hljóði, bíta á jaxlinn, kyngja sorginni. Foreldrið syrgir samverustundir með barni sínu sem það fær ekki að upplifa. Jól, afmæli og fermingar eru sérstaklega erfiðir tímar.
Foreldri sem syrgir lifandi barn fær ekki samúð samfélagsins heldur þarf að bera harm sinn í hljóði. Kona sem syrgir lifandi barn er dæmd af samfélaginu fyrir að vera svona hræðileg móðir að barnið hennar vili ekki vera hjá henni. Eða að móðirin hljóti að vera í einhverju rugli. Þannig að syrgjandi móðir þarf auk sorgarinnar að vera með samviskubit og skammast sín. Þurfa sífellt að réttlæta sig og reyna að útskýra sjálfa sig útávið. Það verður til þess að syrgjandi mæður fela sig, þora ekki að segja frá því sem hefur gerst og þurfa að láta sem ekkert hafi gerst. Maður sem syrgir lifandi barn fær lítinn skilning og er oft sjálfvirk stimplaður sem ofbeldismaður vegna ríkjandi staðalímynda. Syrgjandi faðir syrgir einnig í hljóði og skammast sín jafnvel að ósekju.
Foreldrar sem syrgja lifandi börn fá oft að heyra frá ættingjum, vinum og kunningjum að barnið þeirra komi aftur. Barnið þitt kemur aftur þegar það verðu 18 ára og áttar sig á því hvaða leik hitt foreldrið hefur leikið. En raunin er sú að það er engin trygging fyrir því að börnin komi aftur. Eða hvenær þau komi. Stundum verða þessi börn of sein að koma og syrgjandi foreldrið er látið.
Svo spyr maður sig, er það huggun að vita að barn komi hugsanlega, kannski aftur -mörgum, mörgum árum seinna? Þessi ár sem foreldraútilokun stendur yfir og foreldrið syrgir barnið sitt – koma ekki aftur. Samverustundirnar, afmælisdagarnir, jólin – fermingar – koma ekki til baka. Þessi ár koma ekki aftur. Þessi ár sem syrgjandi foreldrið reynir að halda lífinu áfram, með holu í hjarta og sál, koma ekki til baka. Þegar og ef barnið kemur aftur – er barnið mörgum árum eldra, jafnvel fullorðið. Sjálft komið með maka og/eða börn. Með sára lífsreynslu og söknuð í farteskinu en jafnvel með biturð í hjarta eftir að hafa fengið falskar upplýsingar frá hinu foreldrinu í áraraðir. Falskar minningar.
Barnið sem lendir í foreldraútilokun, missir af samveru með systkinum sínum. Með foreldri sínu, afa þess og ömmu – frændum og frænkum. Sem það var áður í góðu sambandi við. Þetta barn fær ekki að heimsækja veikan afa, koma í útför náins ættingja. Fær það að koma að dánar beði útilokaða foreldrisins? Svarið er nei. Afsökunin sem notuð er er þessi; „barnið vill ekki.“
Í samfélaginu okkar í dag miklum við okkur, bæði almenningur og fagfólk, af því að við hlustum á vilja barna okkar. Barnanna í samfélaginu okkar. Við erum svo góð af því við hlustum svo vel á vilja barna. Og við stærum okkur af því, hve vel við hlustum á börnin.
En er það svo? Erum við að lesa rétt í aðstæður þeirra barna sem eru í þeim aðstæðum að vera búin að loka á foreldri/eða eru í þann mund að loka á foreldri? Eiga ekki öll börn rétt á að vera í samskiptum og tengslum við báða foreldra sína? Er ekki rautt flagg þegar barn vill skyndilega loka á annað foreldri sitt, systkini og alla ættingja og vini sem tilheyra því foreldri sem á að útiloka? Er kannski bara auðveldara fyrir okkur sem manneskjur, foreldra og fagaðila að trúa því að foreldrið sé í raun svo vont og ómögulegt að það eigi að loka á öll samskipti og samveru? Er auðveldara fyrir sýslumannskerfið, barnaverndarkerfið og dómskerfið að dæma útilokaða foreldrinu í óhag því það eru engin úrræði til í svona málum. Það fer jafnvel of mikil vinna í svona mál. Foreldrið sem beitir sér fyrir því að útiloka hitt foreldrið er kannski svona erfitt í samstarfi og tekur jafnvel ekki tali eða rökum. Því er auðveldara fyrir kerfin að afskrifa útilokaða foreldrið. Það þarf bara eitt pennastrik til þess og því fylgir lítill kostnaður.
Eftir situr útilokað, sorgmætt foreldri, systkini, afar og ömmur. Einnig barn með skaða á sálinni fyrir lífstíð, eftir að hafa þurft að útiloka minningar sínar um útilokaða foreldrið og fjölskyldu þess foreldris. Fyrir að hafa misst af mikilvægum samverustundum. Fyrir að hafa varið lífinu í samskiptum við óheiðarlegt foreldri, foreldrið sem útilokaði hitt foreldrið.
Þorsteinn Einarsson
útilokaður faðir