Hvað sem þú vilt verða, geimfari, ballet dansari, jöklaleiðsögumaður, hjúkka eða vörubílsstjóri, þá eru til ótal leiðir til að undirbúa þig fyrir það. En ekkert, ég endurtek; ekkert, mun búa þig fyllilega undir að verða pabbi.
Að skipta um bleyjur, gefa pela, ganga um gólf um miðjar nætur og hugga barn með eyrnabólgu, það er ekki svo mikið mál. Bara verkefni sem þú leysir og breyta þér ekki mikið. Jú, þú þyngist kannski um nokkur kíló af því þú kemst ekki í ræktina og þú mætir óvart í vinnuna með ælu á öxlinni en þessi atriði eru líka smámunir. Útlitsbreyting í mesta lagi.
Það sem maður veit ekki fyrr en að því kemur er hvernig öll tilveran breytist. Eða réttara sagt, hvernig þú breytist. Ef þú hefur verið virkur þátttakandi í meðgöngunni, þá hefurðu kannski fengið forsmekkinn af því sem er að koma. Fáir hafa lýst þeirri tilfinningu betur en Ólafur Haukur Símonarson í textanum “Þitt fyrsta bros” við lag Gunnars Þórðarsonar. Ef þú hefur ekki heyrt það, farðu þá strax á netið og hlustaðu á Pálma Gunnars syngja það. Hér er smá brot:
Það er svo undarlegt að elska
– að finna aftur til.
Að merkja nýjar kenndir kvikna,
að kunna á því skil
hvernig lífið vex og dafnar í myrkrinu.
Að hugsa um þig hvern dag, hverja nótt
er skylda sem ber umbunina í sjálfri sér.
Og svo gerist það. Þú færð litla krílið þitt í fangið og líf þitt verður aldrei aftur eins. Hlutir sem skiptu miklu máli skipta allt í einu engu máli. Á svipstundu hefur allri forgangsröðun í tilveru þinni verið breytt og þessi nýja manneskja, barnið þitt, er í fyrstu tíu sætunum. Þú munt elska það af öllu hjarta, skilyrðislaust, og finna þörf fyrir að vernda það á allan mögulegan hátt. Þú munt standa sjálfan þig að upphugsa aðstæður þar sem þú þarft að verja fjölskylduna og þú ert allt í einu betri í sjálfsvarnaríþróttum en Steven Siegal, Van Damme og Gunni Nelson allir til samans. Þetta er heilinn þinn að undirbúa þig fyrir aðstæður sem gætu mögulega komið upp. Vitandi að þú ert ekki svona góður bardagamaður, muntu líka upphugsa leiðir til að forða fjölskyldunni úr hættulegum aðstæðum.
Þú munt líka finna fyrir þörf fyrir að vera betri maður. Ekkert afl í veröldinni mun kveikja jafn sterka löngun hjá þér til að vera besta útgáfan af sjálfum þér eins og þessi stóru augu sem líta upp til þín með aðdáun og finnst þú lang besti pabbinn í öllum heiminum. Þú munt leggja hart að þér til að verða sá maður og það mun stundum ganga vel og stundum ekki svo vel. Sem er allt í lagi. Enginn er fullkominn.
Og þarna er ferðalagið rétt að byrja. Við erum ekki farnir að tala um leikskólann, áhyggjurnar af því hvernig barnið nær að aðlagast hinum börnunum, hvort það finnur sig í íþróttum, tónlist eða hvernig því gengur í skólanum. Þú munt mæta á æfingar í ótal íþróttagreinum, hlusta tímunum saman á æfingar á mismunandi hljóðfæri, kenna á hjól og skauta, hvetja, baka, hugga og hreinsa hor. Og svo kemur gelgjan og þú ert allt í einu ekki lengur flottasti maður í heimi, þú ert hallærislegur, pirrandi og leiðinlegur og “þú skilur ekkert!” Hurðum er skellt og það er öskrað á þig og það er eins og barnið þitt sé að gera allt til þess að fá þig til að hætta að elska það. En það er ekki hægt. Ekki séns.
Þú munt uppgötva leynihólf í sjálfum þér með nánast ótæmandi þolinmæði. Og þú munt þurfa á því að halda. Þegar storma hefur lægt muntu leita að rétta augnablikinu. Banka á dyr. Bjóða í ísbíltúr. Búa til andrými fyrir spjall sem kannski kemur. Allt í lagi líka bara að hlusta á tónlist saman og borða ís.
Og þetta ferðalag heldur áfram, hættir aldrei. Vitund þín verður aldrei framar bara þín. Um alla framtíð verður hluti af þér með hugann – og hjartað – bundið þessum einstaklingi. Barninu þínu. Sorgir þess verða líka þínar sorgir. Sigrar þess verða þínar tærustu gleðistundir.
Stundum muntu líta til baka og hugsa um þetta hlutverk sem þú fékkst. Hvers það hefur krafist af þér og hvað það hefur fært þér. Og þú munt sjá að það besta í fari þínu hefur þú öðlast með því að elska og ala upp barnið þitt.
Til hamingju með daginn, feður.
Viltu senda okkur grein til birtingar? Netfangið er: foreldrajafnretti@foreldrajafnretti.is
Viltu styðja við starfið? Við þurfum á stuðningi að halda: https://foreldrajafnretti.is/styrkja