logo

Geta einstæðir umgengnisforeldrar aldrei keypt sér íbúð?

Lykilorð

Í gær gaf Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) út skýrslu þar sem meðal annars er tiltekinn sá tími sem það tekur einstaklinga, barnlaus pör og einstæða foreldra að safna sér fyrir útborgun í íbúð. Samkvæmt skýrslunni tekur það einstaklinga 11,4 ár, barnlaus pör 1,7 ár og einstæð foreldri 18 ár að safna sér fyrir útborgun.

Forsendur HMS

Í forsendum HMS má sjá að útborgun í íbúð er talin þurfa að vera 9.572 þúsund krónur, reiknað er með að laun séu 773.610 kr og einstaklingar þiggi húsnæðisbætur á meðan einstæðir foreldrar þiggi húsnæðisbætur og barnabætur m.v. eitt barn undir 7 ára aldri. Við þetta er lítið að athuga, en HMS skautar þó framhjá því að umgengnisforeldrar eiga skv. lögum að greiða lögheimilisforeldrum meðlag. Einstæðir foreldrar eru því ekki einsleitur hópur, enda er eiga umgengnisforeldrar ekki kost á því að fá barnabætur og þurfa ofan á það að greiða meðlag.

Leiðréttir útreikningar

Gera má ráð fyrir því að um 90% umgengnisforeldra séu feður og því 90% lögheimilisforeldra séu mæður. Til einföldunar köllum við hér eftir umgengnisforeldra, sem oftast eru einstæðir feður, B foreldra og lögheimilisforeldra, sem oftast eru einstæðar mæður, A foreldra. Þá er hér gert ráð fyrir því að umgengni sé jöfn eins og er meginreglan eftir að foreldrar búa ekki lengur saman.

Í ljósi þess að meðlög eru lögbundin og taka ekki tillit til umgengni er í leiðréttum útreikningum gert ráð A foreldrar fái meðlög sem B foreldrar greiða og útgjöld séu þau sömu, enda sé barnið til jafns hjá báðum foreldrum þar sem húsnæðiskostnaður vegur þyngst. B foreldri fær ekki barnabætur en fær þó húsnæðisbætur eins og reiknivél HMS tilgreinir réttilega. Rétt er að taka fram að húsnæðisbætur eru einu bæturnar sem báðir foreldrar fá.

Meðlag nemur í dag 48.131 kr. og miðað við fjárhæð launa fyrir skatt sem HMS miðar við, þarf B foreldri að greiða A foreldri 1,75 falt meðlag, eða alls 84.229 kr. á mánuði.

Leiðrétt tafla lítur því svona út:

Einstæðar mæður í betri stöðu en barnlausir einstaklingar

Líkt og sjá má á leiðréttum tölum þá eru einstæðar mæður í töluvert betri stöðu en barnlausir einstaklingar að safna sér fyrir útborgun íbúð. Þær eru aðeins 6,2 ár að safna á meðan barnlausir einstaklingar eru 11,4 ár að safna sér fyrir útborgun.

Einstæðir feður í vonlausri stöðu

Það sem er þó mest sláandi er að einstæðir feður eiga ekki möguleika á að safna sér fyrir útborgun í íbúð og sitja raunar uppi með 15,4 milljón króna skuld auk vaxta ef miðað er við 18 ára tímabil. Foreldrajafnrétti hefur frá stofnun samtakanna fyrir 28 árum lagt ríka áherslu á að báðir foreldrar njóti sambærilegra aðstæðna til að sinna uppeldishlutverki sínu gagnvart börnum. Þrátt fyrir tæplega þrjá áratugi af stöðugum ábendingum um misrétti og skýrum gögnum hafa stjórnvöld enn ekki brugðist við með nauðsynlegum breytingum – afleiðingar þess eru alvarlegar og snerta bæði feður og börn þeirra.

Rétt er að taka fram að í dæmi HMS er aðeins miðað við eitt barn. Í raun eykst munurinn á aðstöðu foreldra enn frekar með hverju barni, og kemur sá munur að langmestu leyti niður á feðrum sem bera kostnað án samsvarandi stuðnings eða réttinda.

Hálf öld að safna sér fyrir útborgun í íbúð

Ef litið er framhjá vöxtum, líkt og gert er í greiningu HMS, tekur það einstæðan föður 48,2 ár að safna sér fyrir íbúð. Eftir að barnið er orðið 18 ára skuldar faðir 15,4 milljónir króna samkvæmt viðmiðum HMS hafi hann verið einstæður faðir frá fæðingu barnsins. Til þess að eiga fyrir útborgun í íbúð þarf hann því að greiða skuldina og safna sér að auki 9,6 milljónum fyrir útborgun sem tekur m.v. barnlausan einstakling 29,8 ár, eða samtals 48,2 ár.

Áskorun til HMS

Foreldrajafnrétti fagnar því að HMS taki saman þessar upplýsingar en óskar þess jafnframt að framvegis verði miðað við kjör A og B foreldra, nú eða einstæðra umgengnisforeldra og einstæðra lögheimilisforeldra, eftir því hvaða orðalag kosið er að nota.

Að lokum má geta þess að á síðasta ári setti Foreldrajafnrétti á fót reiknivélina medlagsreiknir.is þar sem hægt er að setja inn ólíkar sviðsmyndir og reikna út aðstöðumun foreldra sem deila ekki heimili.

Höfundarréttur:
Foreldrajafnrétti
Útgáfudagur:
Október
2025
APA
MLA

Deila grein

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email