logo

Blómaskeið rannsókna á foreldraútilokun

Þekking á foreldraútilokun hefur aukist hægt en jafnt og þétt frá því fyrst hófust rannsóknir á fyrirbærinu á fimmta áratug síðustu aldar. Rannsóknir hafa á hinn bóginn aukist gífurlega síðasta áratuginn og hafa sem dæmi 40% allra rannsókna um foreldraútilokun verið framkvæmdar frá árinu 2016 og þannig skapað mikla vitundarvakningu í fræðasamfélaginu. Í þessu öðru tölublaði Leyfi til að elska birtum við íslenska þýðingu á nýlegri ritrýndri vísindagrein Jennifer J Harman, William Bernet og Joseph Harman um þessa þróun. Greinin birtist fyrst í ritrýnda vísindaritinu Current Directions in Psychological Science árið 2019.

Foreldraútilokun er ein birtingarmynd heimilis-ofbeldis. Rannsóknir á orsökum foreldraútilokandi hegðunar byggja á skráningu tilfella á síðustu áratugum. Í greininni komast rannsakendur að niðurstöðu um hvaða hegðun megi flokka sem foreldraútilokun og hvernig hún hafi áhrif á börn og fjölskyldur þeirra í heild. Einnig er gerður greinarmunur á foreldraútilokun og samskiptavanda foreldra og barns og sýnt fram á að foreldraútilokun er ekki aðeins ofbeldi gagnvart barninu, heldur einnig birtingarmynd heimilisofbeldis sem beinist bæði gegn barninu og útilokaða foreldrinu.

Með því að nota afleiðsluaðferð við greiningu á birtum vísindagreinum um foreldraútilokun og tíðni hennar eru vísbendingar um að 1% allra barna í Bandaríkjunum séu útilokuð frá öðru hvoru foreldri sínu. Rannsóknir bendi einnig til að 29% barna fráskilinna foreldra upplifi útilokandi hegðun af hendi annars foreldris síns. Séu þessar tölur yfirfærðar á Ísland má ætla að um 800 börn séu útilokuð á hverjum tíma hér á landi og að þúsundir barna upplifi útilokandi hegðun foreldris síns gagnvart hinu. Í greininni kemur einnig fram að yfir 22 milljónir fullorðinna Bandaríkjamanna telji sig hafa upplifað útilokandi hegðun af hálfu annars foreldris síns og að af þeim tilvikum hafi um helmingur verið alvarleg útilokun.

Séu þær tölur einnig heimfærðar á Ísland væri um 24 þúsund manns að ræða. Af þessu leiðir að mjög mikilvægt er að rannsaka þessa tegund ofbeldis á Íslandi. Örfáar rannsóknir hafa verið framkvæmdar hér á landi um foreldraútilokun og aðeins af nemendum í BS eða Meistaranámi. Fæstar eru opinberar. Þær hafa ýmist verið teknar úr birtingu eða bíða þess að verða birtar. Sú staðreynd hjálpar ekki til við greiningu á vandamálinu hér á landi.

Niðurstaða rannsóknar Jennifer, William og Joseph er að þrátt fyrir að fagaðilar séu sammála um skilgreiningar og ástæðu foreldraútilokunar þá sé full þörf á frekari rannsóknum innan sviðsins. Þar ætti að leggja áherslu á rannsóknir sem miðast við að breikka fræðilegan grunn, samþætta aðferðafræði til að bæta íhlutun þegar foreldraútilokun á sér stað og koma með meðferðarúrræði byggð á vísindalegri þekkingu. Ísland gæti leikið mikilvægt hlutverk í baráttu gegn þessu ofbeldi, líkt og við höfum áður gert varðandi annars konar ofbeldi.

Birtist í Leyfi til að Elska

Tengd fræðigrein

Foreldraútilokun: Vitundarvakning á rannsóknarsviðinu

Tímaritið

Deila grein

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email