logo

Má heimfæra stöðuna í Tyrklandi á Ísland?

Í þessu fjórða tölublaði Leyfi til að elska birtum við þýðingu á tyrkneskri rannsókn á reynslu útilokaðra foreldra, hvernig útilokandi hegðun og aðferðum var beitt og hvernig þær höfðu áhrif á mál útilokaðra foreldra. Rannsakendur eru þrír og koma frá tveimur háskólum í Istanbúl í Tyrklandi og einum frá Sydney í Ástralíu. Greinin birtist fyrst í ritrýnda vísindaritinu The American Journal of Family Therapy árið 2022. Niðurstaða þeirra er að foreldraútilokun birtist eins í Tyrklandi og annars staðar í heiminum þar sem hún hefur verið rannsökuð. Rannsóknin staðfesti einnig að þekking á foreldraútilokun og útilokandi hegðun er ábótavant á meðal geðheilbrigðisstarfsmanna, lögfræðinga og almennings í Tyrklandi.

Leiða má að því líkum að sambærileg rannsókn á Íslandi gæfi svipaða niðurstöðu. Þær fáu rannsóknir sem hafa verið gerðar hér á landi – og reynsla Foreldrajafnréttis af þolendum foreldraútilokunar – staðfesta að birtingarmyndin er hér eins og annarsstaðar. Á Íslandi vantar þekkingu á foreldraútilokun og útilokandi aðferðum hjá meðferðaraðilum, stofnunum, stjórnvöldum og í réttarkerfinu, bæði hjá lögfræðingum og dómurum.

Eitt fyrsta foreldraútilokunarmálið sem fjölmiðlar á Íslandi fjölluðu um var mál tyrknesks föður (Halim Al) og íslenskrar móður (Sophiu Hansen). Í ljósi þess er umrædd rannsókn sérstaklega áhugaverð. Á þeim tíma sem mál þeirra kom upp var hugtakið um foreldraútilokun nánast óþekkt, ekki bara meðal almennings, heldur einnig meðal fagfólks. Fjölmiðlar fjölluðu ekki um foreldraútilokunina sem slíka heldur um þann einangraða þátt að faðir skilaði ekki börnum sínum aftur til móður eftir umgengni. Í foreldraútilokunarmálum er það oft birtingarmyndin óháð því hvort foreldrar búi í sitthvoru landinu eða ekki.

Halim Al var úrskurðuð forsjá yfir börnum sínum í Tyrklandi þrátt fyrir að beita þau sálrænu ofbeldi. Almenningur í Tyrklandi veittist að Sophiu Hansen þegar hún freistaði þess að ná fram réttlæti sínu, hitta dætur sínar og frelsa þær frá útilokuninni. Á Íslandi snerist umræðan um barnsrán, var líkt við Tyrkjaránið fyrr á öldum og úr varð milliríkjadeila. Hefði þekking á foreldraútilokun verið til staðar hefðu dómarar og meðferðaraðilar mögulega getað leyst málið og bjargað börnunum frá því að missa tengsl við móður sína. Þrátt fyrir að hátt í eitt þúsund rannsóknir hafi verið gerðar á foreldraútilokun síðan er það sorgleg staðreynd að enn verða börn fyrir tengslarofi við annað foreldri vegna vanþekkingar þeirra sem fjalla um þessi mál.

Rannsóknin sem hér er birt sýnir vanþekkingu á foreldraútilokun í Tyrklandi sem leiðir til tengslarofs barns við annað foreldri með þeim alvarlegu afleiðingum sem því fylgir. Mikilvægt er að stuðla að frekari rannsóknum og þekkingu, ekki bara í Tyrklandi og á Íslandi, heldur um allan heim.

Ritstjórn

Birtist í Leyfi til að Elska

Tengd fræðigrein

Foreldraútilokun, reynsla útsettra foreldra í Tyrklandi

Tímaritið

Deila grein

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email