2019-09-14 | PASG Philadelphia | William Bernet
Foreldraútilokun er vandamál sem getur komið upp þegar mikill ágreiningur er milli foreldra er þeir skilja eða slíta sambúð og lendir barnið í miðju hans. Stöku sinnum er hún hins vegar til staðar á meðan foreldrarnir eru enn saman. Foreldraútilokun gerist oft á þann hátt að það er ágreiningur eða stirt samband á milli foreldranna. Á einhverjum tímapunkti byrjar annað foreldrið síðan mögulega að tala illa um, gera lítið úr og gagnrýna hitt foreldrið og ef slíkt niðrandi tal heppnast nægilega vel endar barnið á að taka hlið annars foreldrisins þar sem það vill forðast að lenda á milli í ágreiningi foreldranna. Samkvæmt William Bernet, MD og prófessor emeritus við Vanderbilt University School of Medicine, er algengt að barnið taki hlið þess foreldris sem er að gagnrýna og tala niðrandi til hins foreldrisins. Við að taka hlið þess foreldris hafnar barnið í raun um leið sambandi við hitt foreldrið og það án þess að hafa góða ástæðu fyrir slíkri höfnun. Í lang flestum tilfellum sé það foreldri eðlilegur einstaklingur sem býr yfir góðum eiginleikum sem foreldri og lætur sig hag barnsins varða og því á höfnun barnsins sé einungis stað vegna þess að það skipar sér í röð með útilokunarforeldrinu.
Fyrirbærið foreldraútilokun hefur lengi verið til en það var ekki fyrr en árið 1985 sem nafnið foreldraútilokun birtist fyrst á prenti. Það var í grein eftir barnasálfræðinginn Richard Gardner þar sem hann ræddi hugtakið og skilgreindi það nánar. Í þeirri grein sýndi Gardner til að mynda fram á allir fjölskylumeðlimir gegni að einhverju leyti ákveðnu hlutverki í útilokuninni. Útilokunarforeldrið tekur þátt á þann hátt að það gagnrýnir og talar niður til útsetta foreldrisins. Útsetta foreldrið bregst síðan við þeirri gagnrýni en oft á þann hátt að það hjálpar ekki stöðu þess sem útsett foreldri. Þrátt fyrir að viðbrögð útsetta foreldrisins geti átt það til að varpa upp neikvæðri mynd af því þá veldur það ekki sjálft útilokuninni heldur útilokunarforeldrið. Gardner bendir enn fremur á í grein sinni að barnið gegnir líka hlutverki þegar kemur að foreldraútilokun en það tekur í raun þátt í útilokuninni á ákveðin hátt með því að dragast að öðru foreldrinu og gefa hinu ekki gaum.
Samkvæmt Bernet má finna fagfólk út um allan heim sem hefur þá skoðun að nota eigi hugtakið foreldraútilokun við greiningar. Það láti sig foreldraútilokun varða og sé því líklegt til að skrá hana sem greiningu í þeim málum sem það vinnur með. Að mati Bernet er komin tími á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin finni leið til að bera kennsl á foreldraútilokun í sínu alþjóðlega flokkunarkerfi um sjúkdóma- og dánarmein (e. ICD). Með því að skrá foreldraútilokun sem greiningu gæti Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninn til að mynda birt faglega skilgreiningu og greinargóðar upplýsingar um foreldraútilokun á heimasíðunni sinni sem fagfólk gæti notast við í starfi sínu. Bernet telur að slíkt gæti komið sér vel við að reyna að draga úr atvikum þar sem foreldraútilokun á sér stað. Hann gerir sér þó litlar vonir um að hún verði nokkurn tíma upprætt að fullu, um sé að ræða illgjarnt athæfi og því erfitt að uppræta hana alveg, líkt og á við um önnur illgjörn athæfi á borð við þjófnað.
Bernet bendir þó á að til eru margar góðar hugmyndir um hvernig draga megi úr foreldraútilokun. Þá sé mikill áhugi á því sem kallast sameiginlegt uppeldi en það er þegar báðir foreldrar taka jafnan þátt í uppeldi barnsins. Slíkt fyrirkomulag hefur jákvæð áhrif á samband barns við báða foreldra sína og þá einnig í þeim tilvikum þar sem foreldrum kemur ekki saman. Þá er einnig hreyfing innan Bandaríkjanna sem tengist því hvernig fjölskyldudómstóllinn þar í landi starfar en hún kallast opinberlega Skipulögð fjölskyldumiðlun (e. Structured Family Mediation). Hún felur í sér að foreldrar komi sér saman um hvernig fyrirkomulag um umgengni eigi að vera háttað með aðstoð óháðs þriðja aðila. Sá aðili á ekki að segja foreldrunum hvað þeir eigi að gera heldur hjálpa þeim að ná sjálfir samkomulagi og þá um leið að bæta samskiptin á milli þeirra. Lagt hefur verið til að slík leið sé fyrsta skrefið sem tekið sé þegar leysa þarf fjölskyldudeilur.
Annað skref sem þarf að taka þegar kemur að því að reyna að draga úr foreldraútilokun er að lögmenn, dómarar, sálfræðingar og félagsráðgjafar þurfa að fá meiri þjálfun í slíkum málum svo þeir hafi þekkingu á því hvað felist í útilokun. Slík þjálfun er mjög mikilvæg að mati Bernet þar sem hún myndi gera fagfólki kleift að meta fyrr hvort um foreldraútilokun sé að ræða og á hvaða stigi hún sé, en foreldraútilokun flokkast í þrjú mismunandi stig, væg, í meðallagi og alvarleg. Það er mjög mikilvægt að meðferðaraðilar sem eru með barnið eða útilokunarforeldrið í meðferð geti borið kennsl á þegar foreldraútilokun á sér stað. Ef borið er kennsl á slíkt snemma, þegar útilokunin er að byrja, þá er auðveldar að bregðast við henni, meðhöndla hana og jafnvel lagfæra.
Bernet bendir einnig á að það þurfi að breyta því hvernig nálgast er börn sem eiga foreldra sem standa í skilnaði. Að hans mati er einna best að gefa þeim það ráð að þau haldi sig frá ágreiningi foreldra sinni, hvort sem það sé með því að hunsa það þegar foreldrarnir eigi í deilum eða með því að hreinlega fara úr aðstæðunum. Einnig ætti að ráðleggja börnum að verða ekki við því ef annað foreldrið reynir að tala það inn á að gera eitthvað á hlut hins foreldrisins. Slík ráð gætu verið gefin af námsráðgjafa, meðferðaraðila, vini, presti eða einhverjum sem þekkir fjölskylduna. Bernet tekur þó fram að ljóst er að þetta mun ekki alltaf virka og að ekki öll börn hafi styrk til að halda sig fyrir utan ágreining foreldra sinna. Þrátt fyrir það telur hann að þetta sé ráð sem gefa ætti öllum börnum sem búa við aðstæður sem fela í sér einhvers konar útilokun.
Það er óljóst að mati Bernet hvort hægt sé að meðhöndla með góðum árangri þá foreldra sem beita útilokun þar sem margir þeirra séu með persónuleikaraskanir sem erfitt getur verið að fást við. Velferð barnsins ætti þó ekki að velta á vanda þess foreldris og þar af leiðandi ættu dómstólar að taka það skref að líta á alvarlega foreldraútilokun á sama hátt og ofbeldi gegn börnum. Þá ætti, líkt og í öðrum málum þar sem um ofbeldi gegn börnum er að ræða, að fjarlægja barnið af heimili útilokunarforeldrisins og í þessu tilviki færa það útsetta foreldrinu, sem er líka fórnarlamb í þessu máli. Í kjölfarið myndi hæfur meðferðaraðili vinna með foreldrinu með persónuleikaröskunina sem stóð að útilokuninni og þá væri hægt að meta hvort mögulegt væri fyrir það foreldri að taka framförum, að láta af útilokuninni og taka jafnan þátt í uppeldi barnsins með hinu foreldrinu. Það eru margir meðferðaraðilar til staðar sem eru hæfir til að vinna með fólki með persónuleikaraskanir. Í mörgun tilvikun eru þeir að ná til fólks og fá það til að horfa inn á við og hugsa til baka til að reyna að skilja hvers vegna það fékk þessa tilteknu persónuleikaröskun.
Það eru alltaf hörmulegar aðstæður þegar foreldraútilokun á sér stað innan fjölskyldna. Það er sársaukafullt fyrir alla að barnið lendi á milli í deilum foreldra sinna og endi í þeim hræðilegu aðstæðum að líða eins og það þurfi að velja hvoru foreldrinu það ætli að skipa sér í röð með. Foreldrið sem er hafnað er yfirleitt fullkomlega fært og ástríkt foreldri sem gengur í gegnum þetta hræðilega ástand. Foreldrið sem veldur útilokuninni virðist, allavega í einhvern tíma, hafa stjórn á ástandinu en svo er í raun ekki, það foreldri mun einnig á endanum tapa á útilokuninni. Það er því von Bernet að með tímanum verði til meiri þekking um foreldraútilokun, um hvernig bregðast eigi við henni, hvaðan hún kemur, hvernig greina á hana, hvernig meðhöndla á hana fyrir dómstólum og um hvað meðferð gegn henni á að snúast. Að hans mati er slík þekkingaröflun á réttri leið en þó er enn mikil vinna fyrir höndum.
Foreldrajafnrétti
www.foreldrajafnrétti.is
Hafðu samband:
foreldrajafnretti@foreldrajafnretti.is
Sími:
419 6000
© Foreldrajafnrétti, allur réttur áskilinn