Að vera útilokuð frá mömmu hafði áhrif á allar hliðar lífs míns. Ég hef upplifað sorg oft og mörgum sinnum. Ég missti mömmu mína. Ég glataði sambandi við fjölskylduna mömmu megin. Pabbi minn flutti mig milli ríkja og úr landi og ég glataði öllu sem kunnuglegt var. Mér fannst ég vera stefnulaus. Ég gat ekki séð sjálfa mig í framtíðinni og vissi ekki hvar ég passaði inn í þennan heim… Ég fann fyrir stöðugum innri sársauka án þess að vita hvaðan hann kom… [Seinna missti ég] mömmu mína, en hún fyrirfór sér, og seinna í lífinu varð ég útilokuð frá mínum eigin börnum. Erfiðast var að enginn í kringum mig skildi hvað ég upplifði.“
Þannig lýsir Amanda Sillars áhrifum foreldraútilokunar á líf hennar. Ummæli hennar birtust í nýlegri fræðigrein sálfræðinganna Jennifer J. Harman, Mandy L. Matthewson og Amy J.L. Baker, sem birtist á vef Science Direct í maí síðastliðnum og fjallar um þann missi sem börn upplifa við útilokun frá foreldri. Foreldraútilokunaratferli tengist höfnun barns á foreldri af óréttmætum ástæðum en helstu niðurstöður rannsókna sálfræðinganna, sem byggja á vísindalegum gögnum er ná til meira en þriggja áratuga, eru þær að börn sem hafa verið útilokuð frá foreldri upplifa verulegan missi á mörgum sviðum lífsins. Þá felur missir barnsins á sambandi við útilokað foreldri einnig oft í sér missi á mikilvægu félagslegu stuðningsneti.
Foreldraútilokun á sér stað þegar barn skipar sér í flokk með öðru foreldrinu og hafnar hinu án gildrar ástæðu vegna foreldraútilokunaratferlis. Grein fræðimannanna veitir yfirsýn yfir núverandi rannsóknir og kenningar á þessu sviði og innsýn í þann missi sem útilokuð börn upplifa. „Foreldraútilokunaratferli hefur áhrif á trúnaðartraust, upplifun og minningar barns gagnvart útilokuðu foreldri og kallar fram djúpstæðan missi hjá barninu. Þessi missir felur í sér missi sjálfsmyndar, upplifana í æsku, stórfjölskyldunnar og samfélagsins ásamt minni virkni og skorti á nauðsynlegum samböndum sem eru grundvöllur fyrir heilbrigðum þroska. Þar af leiðandi upplifa útilokuð börn oft stöðugan og óljósan missi og þjást því af óviðurkenndri sorg í einrúmi,“ skrifa sálfræðingarnir meðal annars.
Börn sem eru fórnarlömb útilokunar upplifa ekki eingöngu missi foreldrasambands. Þau upplifa veruleikafirringu sem skapar skaða á sjálfsmynd, æsku og sakleysi sem og sambandi við stórfjölskylduna og önnur samfélög, segir m.a. í niðurstöðu sálfræðinganna. Með þessu sé barnið svipt margs konar stuðningsneti og verkfærum sem stuðla að heilbrigðum þroska. Fræðimennirnir benda á að heilmikil þekking sé nú þegar til staðar um það hvernig foreldraútilokunaratferli skaði börn sem verða fyrir því. Hægt sé að nýta þá vitneskju til verndar komandi kynslóðum barna, gegn þessari skaðlegu tegund misnotkunar. Hér á eftir verður farið í gegnum helstu niðurstöður fræðimannanna.
Foreldraútilokun ólík foreldrafráhvarfi
Foreldraútilokun er fjölskyldumynstur þar sem barn sýnir öðru foreldri hollustu en hafnar hinu á óréttmætan hátt. Líkt og sjá má af frásögn Amöndu hér að ofan, upplifa útilokuð börn meiri háttar missi á mörgum sviðum lífsins. Upplifun á foreldraútilokunaratferli og tilheyrandi missi má tengja við margþætt neikvæð áhrif á börn sem geta fylgt þeim til fullorðinsára, þar á meðal lágt sjálfsmat, vantraust og áunnið bjargarleysi, misnotkun vímuefna, þunglyndi og kvíða.
Þrátt fyrir að foreldraútilokun hafi mjög djúpstæð og neikvæð áhrif á allt fjölskyldukerfið, beina sálfræðingarnir sjónum sérstaklega að kenningum og rannsóknum tengdum þeim missi sem börn upplifa við slíkt atferli, og byggja á vísindalegum gögnum sem ná til meira en þriggja áratuga. Þá skoða þeir nokkur kenningarmódel og beita þeim til þess að skilja betur hvernig foreldraútilokunaratferli orsakar þennan missi.
Áður en lengra er haldið er vert að hafa í huga að foreldraútilokun er frábrugðin foreldrafráhvarfi að því leyti að með því síðarnefnda er átt við réttmæta höfnun á foreldri, svo sem vegna illrar meðferðar eða ef uppeldi er verulega ábótavant.
Hefur víðtæk áhrif á traust
Foreldraútilokunaratferli getur til að mynda birst með slæmu umtali um hitt foreldrið eða samskiptastýringu. Aukin tíðni slíkra aðferða skapar svo fjarlægð og samskiptaörðugleika í sambandi barnsins við hitt foreldrið sem má tengja við aukna höfnun barnsins á því foreldri. Rannsóknir, sem skoða þessi tengsl og byggja á greinargóðum lýsingum lækna sem og þeirra sem hafa persónulega reynslu af foreldraútilokun, sýna meðal annars að útilokunarforeldri er líklegra til að verða uppvíst að öðrum tegundum misnotkunar eins og vanrækslu fremur en útilokað foreldri. Þá má færa rök fyrir því að foreldraútilokunaratferli sé ein tegund ofbeldis í nánu sambandi vegna þess hve neikvæð áhrif hún hefur á allt fjölskyldusambandið.
Foreldraútilokunaratferli hefur víðtæk áhrif á traust barns á útilokuðu foreldri, skynjun sem og minningar um það. Kerfisbundið endurmat á ásetningi hins foreldrisins veldur raunveruleikaröskun sem verður til þess að jafnvel sárasaklaus hegðun umbreytist í vísbendingar um ábyrgðarleysi. Barnið þarf hins vegar ekki að upplifa eins og verið sé að stjórna því, þar sem þarna geta leynst einhver sannleikskorn sem hjálpuðu til við að komast að þessari niðurstöðu. Smám saman upprætir útilokunarforeldrið getu barnsins til gagnrýninnar hugsunar og að treysta eigin getu, sem getur leitt til þess að það eigi erfiðara með að greina á milli innri og ytri veruleika og fer að upplifa sjálft sig og aðra sem hættulega og tilfinningalausa. Röskunin á raunveruleika barnsins kallar fram flæði þessa djúpstæða missis sem barnið upplifir þá, eins og sýnt er á skýringarmyndinni hér fyrir neðan.
Mynd 1. Missir sem útilokað barn upplifir.
Missir sjálfsmyndar
Vegna þess að útilokaða foreldrið er talið ótraust, ástlaust og ótiltækt finnst barninu það þurfa að hafna öllum tengslum við það foreldri, þar á meðal hluta af sínu eigin sjálfi. Samtímis notar útilokunarforeldrið aðferðir tilfinningakúgunar til þess að skapa óheilbrigð tengsl milli þess sjálfs og barnsins, sem ýtir undir þá hugmynd að barnið og útilokunarforeldrið séu saman í liði gegn útilokaða foreldrinu og tengdum aðilum. Þetta er gert til þess að koma inn hjá barninu sektarkennd yfir að tjá jákvæðar tilfinningar í garð útilokaða foreldrisins og gera barnið háð útilokunarforeldrinu. Það leiðir síðan til þess að barnið verður ófært um að sýna eigið frumkvæði og missir af tækifæri til að þroska eigin sjálfsmynd.
Missir æsku og sakleysis
Fullorðnir sem upplifðu útilokun sem börn tala margir hverjir um tapaða æsku, þar sem þeim tókst ekki að þroska félagslega aðlögunarhæfni sökum þess hve mikill tími og orka fór í að einbeita sér að og forgangsraða eftir þörfum útilokunarforeldris. Algengt er að útilokunarforeldri veiti barninu óviðeigandi upplýsingar ætlaðar fullorðnum, svo sem varðandi réttarfarsleg efni, eða hvetji barnið til þess að taka ákvarðanir ætlaðar fullorðnum, svo sem varðandi uppeldisaðferðir. Þá eru einnig mörg dæmi þess að útilokunarforeldrið komi fram við barnið eins og það væri mun yngra en það er, með því að hindra reynslu sem þroskar sjálfstæði og sjálfsbjargarviðleitni þess, svo sem að leika við jafnaldra félaga eða einbeita sér að menntun og afþreyingu. Fullorðnir sem upplifa síðar meir að útilokunarforeldrið beri ábyrgð á að þeir hafi farið á mis við æskuna með þessum hætti, upplifa einnig missi sakleysis um eðli þessa sambands.
Missir „allt í lagi“ foreldris
Með því að telja barninu trú um að útilokaða foreldrið hafi aldrei elskað það né viljað, yfirgefið það eða sé hættulegt, spillir útilokunarforeldrið því sem voru heilbrigð tengsl við útilokaða foreldrið. Með tíð og tíma myndar barnið þessi neikvæðu viðhorf hið innra með sér og þróar með sér tilfinningar á borð við sársauka, reiði og gremju. Barnið kemur til með að afneita öllum jákvæðum tilfinningum sem það bar áður til útilokaða foreldrisins og upplifir það sem „alvont“ samanborið við útilokunarforeldrið sem er „algott“. Þetta endar oft með því að það mótmælir og/eða neitar samskiptum við útilokaða foreldrið sem var áður skilgreint sem „allt í lagi“.
Missir stórfjölskyldunnar
Stórfjölskyldan er öllum börnum mikilvæg, en hún veitir þeim ást, viðurkenningu, andlega næringu, félagslegan og sálrænan stuðning lífið á enda, auk þess sem hún miðlar hæfileikum og þekkingu sem hjálpar til við allan þroska barnsins. Þá veitir tengslanetið í kringum stórfjölskylduna tilfinningalegan jafnt sem félagslegan stuðning, svo eitthvað sé nefnt. Útilokuð börn missa oft þessi mikilvægu tengsl vegna foreldraútilokunaratferlis, svo sem þegar komið er í veg fyrir heimsóknir ömmu og afa, sem getur síðan haft áhrif á allt þeirra líf. Þau missa af tækifærum til að öðlast þekkingu og lífssýn sem hefði getað haft áhrif á framtíðarmöguleika þeirra og/eða stækkað félagslegt tengslanet þeirra út fyrir nánustu fjölskyldu.
Missir samfélags
Flutningur í nýtt hverfi, á nýtt svæði eða í nýtt land er foreldraútilokunaratferli sem er til þess fallið að slíta eða minnka verulega samband barnsins við útilokaða foreldrið. Ofan á þann missi sem felst í að vera útilokað barn, þá er því skyndilega kastað inn í framandi umhverfi langt frá vinum, skóla og nágrönnum. Börn sem hafa verið flutt búferlum erlendis með þessum hætti eru einnig svipt þeim kunnuglegu menningar- og félagslegu viðmiðum sem þau þekkja og eru hluti af sjálfsmynd þeirra. Þessi missir á sér stað á sama tíma og barnið hefur verið algjörlega einangrað frá því félagslega stuðningskerfi sem það áður þekkti og er það því neytt til að takast á við margfaldan missi á eigin spýtur.
Innra missis samhengi
Foreldrar gegna mörgum hlutverkum í lífi barna sinna með því að veita þeim ýmis úrræði og tækifæri, samanber þarfapíramída Maslows sem vísað er í töflunni hér fyrir neðan. Það eru engin efri mörk á því hversu miklu barn getur tekið við á hverju sviði. Jafnvel þó að eitt foreldri þess veiti því tækifæri og sambönd, hagnast barnið samt af öllu því sem hitt foreldrið getur veitt. Það sem meira er, þá getur fjarvera foreldris haft þýðingu umfram skort á tækifærum og úrræðum, sérstaklega þegar barnið er blekkt til að trúa því að foreldrið sé ástlaust, ótraust og ófúst. Þegar barnið upplifir að það skaðist af þessum tengslum og fjarlægist þar með útilokaða foreldrið, hefur það neikvæð áhrif á sjálfstraust barnsins og það fer að bæla niður minningar um ást og væntumþykju frá útilokaða foreldrinu. Þegar barnið missir tengslin við eigin raunveruleika og skynjun, líkt og rakið hefur verið, skapar það kvíða og þunglyndi sem getur valdið því að barnið verður ófúst að viðhalda sambandi við útilokaða foreldrið. Þegar það hefur algjörlega misst sambandið við útilokaða foreldrið, verður barnið loks algjörlega háð útilokunarforeldrinu sem gerir það líklegra til að fórna eigin þörfum fyrir útilokunarforeldrið og tapa þar með eigin sjálfsmynd, æsku og sambandi við stórfjölskylduna í ferlinu.
Tafla 1. Áhrif missis á þarfir barns.
Þörf | Hlutverk foreldris til að mæta þörfum barns. | Dæmi um áhrif á barnið vegna foreldraútilokunar. |
Lífeðlisfræðileg | Kaup á mat, fatnaði, húsnæði og lyfjum. | Færri einstaklingar sem aðstoða við kaup á mat, fatnaði, húsnæði og lyfjum fyrir barnið. |
Öryggi | Að geta veitt hreint og öruggt heimili með fyrirsjáanlegri stundaskrá/skipulagningu á daglegum athöfnum (venjur) og umhirðu. | Færri einstaklingar sem kenna barninu að forðast hættur, hvernig vinna eigi húsverk, hvernig verja eigi einstaklinginn sjálfan og barnið hættum. |
Ást og að tilheyra | Barnið snert ástúðlega og með væntumþykju og þar með bönd barnsins og tilfinningin af að tilheyra styrkt af stórfjölskyldunni og samfélaginu. | Færri sem snerta barnið ástúðlega og með væntumþykju og þar með bönd barnsins og tilfinningin af að tilheyra minna styrkt af stórfjölskyldunni og samfélaginu. |
Virðing | Barninu skapað tækifæri til að taka ákvarðanir og tjá sitt sjónarhorn sem er metið að verðleikum. | Færri einstaklingar sem skapa tækifæri fyrir barnið til að taka ákvarðanir og tjá sitt sjónarhorn sem er metið að verðleikum. |
Sjálfsbirting | Barninu skapað tækifæri til þess að taka ákvarðanir, tjá sig, kynna sér íþróttir og listir sem og þroska hjá því hæfni, gildi, smekk, stíl og hæfileika. | Færri einstaklingar skapa barninu tækifæri til þess að taka ákvarðanir, tjá sig, kynna sér íþróttir og listir sem og þroska hjá því hæfni, gildi, smekk, stíl og hæfileika. Þessi tækifæri duga kannski ekki til en eru nauðsynleg til þess að þróa sjálfsbirtingu. |
Athugið: Þessi flokkun þarfa eru byggð á stigveldi þarfa eftir Maslow.
Fræðileg nálgun
Það getur verið gagnlegt að skoða áhrif foreldraútilokunar á börn í samhengi við ýmsar sálfræðikenningar. Samkvæmt geðtengslakenningunni sækjast börn eftir huggun og nálægð við geðtengslaaðila vegna þess að geðtengsl veita afkomuöryggi þegar þau virkjast í óöruggum aðstæðum, eins og til dæmis þegar þau upplifa sig ein. Þegar foreldrar bregðast við ósk barns um huggun á fyrirsjáanlegan og ástúðlegan hátt, metur barnið upplifunina þannig að foreldrið sé áreiðanlegt, ástúðlegt og til staðar. Útilokunarforeldrið grefur hins vegar undan þessum tengslum með því að sannfæra barnið um hið gagnstæða í sambandi við hitt foreldrið, sem hefur svo áhrif á hvernig barnið upplifir sjálft sig, hitt foreldrið og sambönd í víðari skilningi.
Kenningin um samruna sjálfsmyndar getur að einhverju leyti skýrt hvers vegna útilokuð börn styðja og verja útilokunarforeldrið eindregið og taka jafnvel þátt í að niðurlægja útilokaða foreldrið með því að búa til falskar ásakanir um ofbeldi og þvinga systkini sín til þess sama. Samruni sjálfsmyndar lýsir sér í yfirþyrmandi tilfinningu um að tilheyra hópi, sem gerir mörkin á milli einstaklingsins og annarra óljós. Foreldraútilokunaratferli skapar þessa tegund sjálfsmyndarsamruna. Meðlimir slíks hóps, sérstaklega þeir sem hafa ættartengsl, eru tilbúnir að gera jafn mikið fyrir hópinn eins og sjálfa sig. Þeim finnst þeir skuldbundnir til að verja aðra innan hópsins og eru því tilbúnir að samþykkja og taka þátt í öfgakenndu hópatferli.
Kenningin um óvissuminnkun getur einnig útskýrt hvers vegna börn taka þátt í óréttlætanlegri höfnun foreldris. Þegar fólk skortir trú á framtíð sambands getur það tekið upp atferli sem miðar að því að draga úr óvissu og ófyrirsjáanleika, svo sem að leita skýringa á því hvers vegna sambandið er að leysast upp. Til að réttlæta höfnun sína á útilokuðu foreldri og takast á við missinn sem útilokunarforeldrið hefur framkallað, leitar útilokað barn allra leiða til þess að draga úr eigin efasemdum, meðal annars með því að slíta sambandinu alveg. Sá missir sem fylgir hefur tvær hliðar, vegna þess að hann verður án vissu eða ákvörðunar.
Tvíbentur missir birtist á tvennan hátt: þegar ástvinur er líkamlega viðstaddur en andlega fjarverandi; og þegar ástvinur er líkamlega fjarverandi en andlega viðstaddur. Hjá útilokaða barninu er útilokaða foreldrið oft líkamlega fjarverandi en andlega viðstatt. Útilokunarforeldrið er hins vegarlíkamlega viðstatt en andlega fjarverandi, vegna þess að það er mjög oft uppteknara af eigin andlegum þörfum fremur en barnsins. Þessi óljósi missir veldur dulinni sorg sem er falin, framandi og ósamþykkt af öðrum. Útilokaða barnið fær ekki að tjá þessa víðtæku sorgartilfinningu vegna missis sambands þess við útilokaða foreldrið. Þó að svo virðist sem útilokaða barnið hafi valið að hafna foreldri sínu, er höfnunin ekki val þess heldur fremur afleiðing foreldraútilokunaratferlis útilokunarforeldrisins. Þar af leiðandi hafa fullorðnir sem voru útilokaðir frá foreldri í æsku, lýst djúpri sorgartilfinningu sérstaklega vegna þess tíma sem ekki var varið með útilokaða foreldrinu.
Niðurstöður
Líkt og komið hefur fram hér að ofan þá upplifa börn sem eru fórnarlömb útilokunar ekki eingöngu missi foreldrasambands. Þau upplifa veruleikafirringu sem skapar skaða á sjálfsmynd, æsku og sakleysi sem og sambandi við stórfjölskylduna og önnur samfélög. Með þessu er barnið svipt margs konar stuðningsneti og verkfærum sem stuðla að heilbrigðum þroska. Fræðimennirnir benda á að heilmikil þekking sé nú þegar til staðar um það hvernig foreldraútilokunaratferli skaðar börn, sem verða fyrir því. Hægt sé að nýta þá vitneskju til verndar komandi kynslóðum barna gegn þessari skaðlegu tegund misnotkunar.