logo

Útilokun frá foreldri skaðar börn

Tengd grein
Tengt ítarefni

Börn sem eru útilokuð frá foreldrum sínum upplifa umfangsmikinn missi (Úrdráttur)

Töluverðar rannsóknir liggja fyrir á þeim áhrifum sem börn verða fyrir við foreldraútilokun. Þau áhrif eru víðtækari og meiri en halda mætti í fyrstu og með þá vitneskju í handraðanum er ljóst að til mikils er að vinna að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir verði fyrir þessari skaðlegu tegund af vanrækslu.  

Rannsóknir meðal barna sem orðið hafa fyrir útilokun annars foreldris, leiða í ljós mikinn missi á mörgum sviðum lífsins, sem og missi á mikilvægu félagslegu stuðningsneti. Áhrif af slíkum missi og skaða gætu talist vanmetin en rannsóknir leiða í ljós margháttaðan skaða, svo sem missi á sjálfsmynd, upplifunum í æsku og nauðsynlegum samböndum fyrir heilbrigðan þroska. Því þjást þau oft af réttindalausri sorg í einrúmi. Við foreldraútilokun sýnir barn öðru foreldri sínu óheilbrigða hollustu og hafnar hinu. Er þá slík hegðun afleiðing af gerðum þess foreldris sem meinar barninu samvistum við hitt foreldrið. 

„Enginn skildi upplifunina“

Gott dæmi um afleiðingar slíkrar foreldraútilokunar kemur fram í lýsingu bandarískrar konu af afleiðingum þessa. Þar kemur á áhrifamikinn hátt fram hvernig missir hennar litaði eftirleiðis líf hennar. Hún var svipt samskiptum við móður sína þegar faðir hennar fluttist með hana milli ríkja í Bandaríkjunum. Hún lýsir því hvernig hún ekki bara missir móður sína, heldur alla fjölskyldu móður hennar og var kynnt fyrir glænýju og óþekktu umhverfi. Fyrir vikið fannst henni hún stefnulaus, fann fyrir stöðugum innri sársauka og sá ekki hvar hún passaði inn í þennan heim. Erfiðast var að enginn í kringum hana skildi hvað hún upplifði.

Fjölþætt neikvæð áhrif

Foreldraútilokun má tengja við margþætt neikvæð áhrif á börn sem geta fylgt þeim til fullorðinsára, svo sem lágt sjálfsmat, vantraust og tillært bjargarleysi, misnotkun vímuefna, þunglyndi og kvíða. Foreldraútilokun breytir trausti, skynjun á og minningum af útilokaða foreldrinu. Kerfisbundin útilokun þess foreldris sem meinar barninu samskipti við hitt foreldrið, rýrir getu barnsins til gagnrýninnar hugsunar og þess að treysta eigin getu. Samtímis notar útilokunarforeldri aðferðir tilfinningakúgunar til þess að skapa óheilbrigð tengsl milli sjálfs sín og barnsins og í leiðinni á móti hinu útilokaða foreldri. Iðulega líðst barni í þessari stöðu ekki að tjá jákvæðar tilfinningar um hitt foreldrið og með því verður það ófært um að sýna eigið frumkvæði og missir af tækifæri til að þroska eigin sjálfsmynd. Fullorðnir sem upplifað hafa útilokun sem börn lýsa reynslunni sem missi æskunnar, vegna þess að þeir misstu af reynslu nauðsynlegri fyrir þroska félagslegrar aðlögunarhæfni. 

Meira en foreldramissir

Meðlimir stórfjölskyldunnar veita börnum ást, viðurkenningu, uppeldi og aðrar tegundir sálræns stuðnings gegnum lífið og eru mannauður ríkur af hæfileikum og þekkingu sem hjálpar til að virkja barnið á annan og frjósaman hátt sem fullorðinn. Stórfjölskyldan hefur einnig tengslanet, þekkingu og tilfinningalegan og félagslegan stuðning. Útilokuð börn missa þessi mikilvægu tengsl og þau missa af tækifærum til að öðlast þekkingu og lífssýn sem gæti haft áhrif á framtíðarmöguleika og stækkað félagslegt tengslanet út fyrir nánustu fjölskyldu. Ein afleiðing foreldraútilokunar er gjarnan flutningur í nýtt hverfi, á nýtt svæði eða í nýtt land. Barninu er hent inn í framandi umhverfi langt frá vinum, skóla og nágrönnum sínum, í ofanálag við missi sem útilokaðs barns og eykur það enn á vanda barnsins. 

Djúp sorgartilfinning

Margir fullorðnir sem voru útilokaðir frá foreldri í æsku, hafa lýst djúpri sorgartilfinningu sérstaklega vegna þess tíma sem ekki var varið með útilokaða foreldrinu. Útilokaða barnið upplifir ekki eingöngu missi foreldrasambands, það upplifir veruleikafirringu sem skapar missi af sjálfsmynd, æsku og sakleysi sem og sambandi við stórfjölskylduna og samfélög. Með þessum missi er barnið svipt margs konar stuðningsneti og verkfærum sem stuðla að heilbrigðum þroska. Mikil vitneskja hefur safnast upp um þau skaðlegu áhrif sem foreldraútilokun getur haft. Með þá vitneskju í handraðanum er ljóst að til mikils er að vinna að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir verði fyrir þessari skaðlegu tegund af vanrækslu.

Deila

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email