logo

Endurskoðun á búsetuákvæðum barnalaga: Aðlögun að þörfum og velferð barna

Í þessu tölublaði af Leyfi til að elska erum við stolt af því að birta íslenska þýðingu á ritrýndri vísindarannsókn á vegum Lara Augustijn, sem upphaflega birtist í Journal of Public Health árið 2021. Rannsóknin, sem framkvæmd var við Háskólann í Duisburg-Essen í Þýskalandi, skoðar áhrif jafnrar og skiptar búsetu á andlega og líkamlega heilsu barna eftir skilnað foreldra. Niðurstöðurnar sýna skýrt fram á færri sálræna og líkamlega kvilla hjá börnum í jafnri búsetu, sem undirstrikar mikilvægi þess að styðja við jafna búsetu sem meginreglu.

Þessi rannsókn styður við fjölda rannsókna sem og niðurstöðu William Fabricius frá árinu 2020, sem sýndi fram á mikilvægi þess að börn eyði jöfnum tíma hjá hvoru foreldri um sig til að ná fullkominni vellíðan (Fabricius, 2020). Fabricius benti á að 30% tími hjá hvoru foreldri fyrir sig, sem er viðmiðið í rannsókn Augustijn, sé ekki nægjanlegur og að marktækur munur sé á vellíðan barna sem verja alveg jöfnum tíma hjá hvoru foreldri á móti lægra hlutfalli.

Árið 2021 voru gerðar breytingar á íslensku barnalögunum með það að markmiði að styðja við skipta búsetu á Íslandi. Þrátt fyrir að lagabreytingar hafi miðað að því að styðja við skipta búsetu, voru lagabreytingarnar ófullnægjandi. Lögin veita ekki fullnægjandi grundvöll fyrir dómstóla til að úrskurða um jafna búsetu sem meginreglu og verra er að þau leyfa að annað foreldrið slíti einhliða skiptri búsetu, sem getur valdið óstöðugleika og óvissu fyrir börnin.

Þrátt fyrir þessi álitamál hefur almenningsálit og yfirlýsingar ráðherra staðfest mikinn stuðning við skipta búsetu. Þetta endurspeglar vaxandi samfélagslegan skilning á mikilvægi þess að börn njóti náinna og jafnra tengsla við báða foreldra eftir skilnað. Ísland stendur því frammi fyrir tækifæri til að leiðrétta og endurskoða barnalögin til að mæta þessum nýja skilningi og kröfum.

Í því samhengi þarf Alþingi að grípa til aðgerða. Lagabreytinga er þörf sem ættu að innihalda skýrari ákvæði sem tryggja að dómstólar geti, að jafnaði, úrskurðað um jafna búsetu og að hún verði meginregla. Einnig þarf að setja strangari reglur varðandi einhliða slit á skipti búsetu, til að vernda stöðugleika og velferð barna.

Þessar breytingar myndu ekki aðeins tryggja betri lífsgæði barna í kjölfar skilnaðar, heldur einnig sýna alþjóðasamfélaginu að Ísland er framsækið í að setja velferð og réttindi barna í forgang. Endurspeglun nýjustu rannsókna í löggjöf myndi marka mikilvægt skref í átt að því að tryggja að börnin okkar alist upp í umhverfi sem styður við þroska þeirra og vellíðan.

Heimild: Fabricius, W. V. (2020). Equal parenting time: The case for a legal presumption. In J. G. Dwyer (ritstj.), The Oxford handbook of children and the law (bls. 453–476). Oxford Academic. https://doi.org/10.1093/oxfordhb/9780190694395.013.22

Birtist í Leyfi til að Elska

Tengd fræðigrein

Þroski og vellíðan skilnaðarbarna grundvallast á jafnri umgengni

Tímaritið

Deila grein

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email