2019-09-14 | PASG Philadelphia | Foreldraútilokun með augum sérfræðinganna
Linda Gottlieb, fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi og löggildur klínískur félagsráðgjafi, fjallar um mikilvægi þess að fagfólk sem starfar við fjölskylduráðgjöf fái þjálfun í að greina birtingarmyndir foreldraútilokunar og þær aðferðir sem útilokunarforeldrar beita. Hún nefnir einnig mikilvægi þess að grípa fljótt inn í útilokun vegna neikvæðra áhrifa hennar á geðheilsu barna.
Jennifer J. Harmann, prófessor í félagssálfræði, fjallar um nýjustu rannsókn sína á útsettum foreldrum og áhrifum útilokunar. Foreldraútilokun hefur neikvæð áhrif á andlega heilsu útsettra foreldra og getur haft langtímaáhrif á andlegan þroska þeirra barna sem búa lengi við andlegt ofbeldi sem fylgir útilokun. Það er því mikilvægt að gripið sé fljótt inn í slík mál.
Karen Woodall geðlæknir hefur mikla reynslu af að vinna með kynslóðaskipt áföll og foreldraútilokun. Samkvæmt henni hefur fjölskylduaðskilnaður, útilokandi hegðun og klessutengsl slæm og langvarandi áhrif á börn. Þá tileinka börn sér á fullorðinsaldri svipað fjölskyldumynstur og þau alast upp við, sem getur gert þau útsett fyrir að verða sjálf útilokað foreldri.
Samkvæmt Nick Woodall, sálfræðingi með MS í sálaraflfræði, hefur foreldraútilokun langvarandi neikvæð áhrif á börn ef þau fá ekki viðeigandi sálfræðimeðferð. Þá getur sjálf barna klofnað en það hefur slæm áhrif á sjálfsmynd þeirra, sambönd við aðra og jafnvel á næstu kynslóð ef ekki er tekist á við útilokunina.
Þroskasálfræðingurinn Amy J. L. Baker útskýrir Fjögurra þátta líkanið, greiningarramma sem auðveldar fagfólki að greina á milli foreldraútilokunar og foreldrafráhvarfs. Þá segir hún frá rannsóknum sínum um áhrif foreldraútilokunar á börn, þeirri kenningu að foreldraútilokun sé ein tegund andlegs ofbeldis og greinir frá þjálfun sem hún býður upp á fyrir útsetta foreldra.
Steven G. Miller, MD í sálfræði og læknisfræði, fjallar um mikilvægi þess að fagfólk sem kemur að málum tengdum foreldraútilokun búi yfir sérþekkingu á því sviði. Slík mál séu erfið viðureignar þar sem ekki er hægt að nálgast þau út frá innsæi heldur krefjist þau þess sem hann kallar vísindi byggð á sönnunum.
Útilokun af hendi þriðja aðila getur samkvæmt Shawn Wygant réttarsálfræðingi þróast út frá klessutengslum barns og útilokunarforeldris. Foreldrið þrýstir á barnið að mynda með sér bandalag gegn útsetta foreldrinu og notfærir sér síðan barnið til að fá fagaðila til að taka sína hlið í ágreiningi sínum við hitt foreldrið.
Samkvæmt William Bernet, MD, er foreldraútilokun víðfemt vandamál sem bregðast þarf við. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin þarf að viðurkenna að hún eigi sér stað, fagfólk þarf að þjálfa í að bera kennsl á hana svo hægt sé að grípa fyrr inn í og fjölskyldumiðlun þarf að vera í boði fyrir fjölskyldur í kjölfar skilnaðar.
Foreldrajafnrétti
www.foreldrajafnrétti.is
Hafðu samband:
foreldrajafnretti@foreldrajafnretti.is
Sími:
419 6000
© Foreldrajafnrétti, allur réttur áskilinn