logo

2019-09-14 | PASG Philadelphia | Jennifer J. Harman

Samkvæmt nýjustu rannsóknum Jennifer J. Harman, prófessors í félagssálfræði, eru um 22 milljónir fullorðinna einstaklinga í Bandaríkjunum fórnarlömb foreldraútilokunar og um 4 milljón börn sem tengjast miðlungs til alvarlegum málum. Þessar tölur ná ekki yfir væg mál þar sem barn á enn í einhverjum samskiptum við útsetta foreldrið né yfir systkini, þar sem rannsóknin náði einungis yfir eitt barn í fjölskyldu. Þessar tölur eru því líklega hærri en rannsóknin gefur til kynna.

Það virðist vera útbreiddur skilningur að báðir foreldrar hljóti að stuðla að því að barnið hafnar öðru þeirra, það er að báðir foreldrar séu að koma illa fram við hvort annað. Rannsóknir Harman sýna hins vegar fram á að það er ekki gagnkvæm neikvæð hegðun sem veldur foreldraútilokun heldur sé um að ræða eitt form heimilisofbeldis, þar sem annað foreldrið sýnir áberandi fleiri neikvæð atferli en hitt. Það hefur lengi verið í umræðunni að tala einungis um foreldraútilokun sem ofbeldi gegn börnum. Sú umræða á rétt á sér þar sem foreldraútilokun hefur skaðleg áhrif á börn og samband þeirra við aðra. Hinsvegar ætti einnig að horfa á foreldraútilokun sem heimilisofbeldi þar sem eitt helsta markmið útilokunarinnar er að skaða útilokaða foreldrið og samband þess við barnið.

Það sést einna helst á því að hegðun útilokunarforeldrisins snýr ekki alltaf að barninu sjálfu heldur er barnið notað sem vopn gegn útilokaða foreldrinu. Hegðanir á borð við lagalegar árásir, slæmt umtal, falskar ásakanir um ofbeldi, lögregluútköll er barnið er hjá útilokaða foreldrinu og hótanir og áreitni í tölvupóstum og skilaboðum eru á pari við það sem sjá má í öðrum málum tengdum heimilisofbeldi þar sem annað foreldrið beitir þvingunum og fjandsamlegu hátterni til að ná valdi og stjórn yfir hinu foreldrinu. Þá má einnig sjá bæði í málum tengdum heimilisofbeldi og útilokun að sá sem beitir ofbeldinu reynir að einangra bæði barnið og útsetta foreldrið félagslega með því að vekja upp hjá fjölskyldu og vinum spurningar um hæfi útsetta foreldrisins sem foreldri. Í þessum aðstæðum getur verið erfitt fyrir nánustu aðstandendur viðkomandi að bera kennsl á að útsetta foreldrið sé fórnarlamb heimilisofbeldis þar sem útilokunin gerist smám saman yfir langan tíma.

Ein afleiðing útilokunar er að útsettir foreldrar finna margir fyrir ákveðnu hjálparleysi. Að þeim líði sem þeir hafi hvorki vald né stjórn yfir því sem gerist í lífi þeirra eða barnsins heldur sé það útilokunarforeldrið sem stjórni öllu, bæði aðgengi og samskiptum. Þá upplifi útsetta foreldrið að ef það segir eitthvað um það við barnið að barnið muni túlka það sem neikvæðni og fjandskap gagnvart foreldrinu sem það er að reyna að vernda. Rannsóknir hafa enn fremur leitt í ljós að þegar einkenni á borð við áfallastreitu, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir eru metin hjá útilokuðum foreldrum að tíðni þeirra er hærri en hjá foreldrum sem eru ekki útilokaðir eða barnlausir. Þá sögðust 47% útilokaðra foreldra í miðlungs til alvarlegum málum hafa íhugað að taka eigið líf vegna forræðisdeilna eða ágreinings við fyrrverandi maka. Staða útilokaðra foreldra er því mjög alvarleg og sérstaklega þegar litið er til þess hve fáir hafi úrræði að leita í til að takast á við tilfinningarnar sem fylgja útilokuninni.

Líkt og í öðrum ofbeldismálum er lítill kynjamunur þegar litið er til þess hverjir séu líkleg fórnarlömb foreldraútilokunar. Sú niðurstaða virðist þó vera andsnúin þeim viðhorfum sem finna má í samfélaginu en flestir halda að það séu aðallega mæður sem beiti foreldraútilokun á meðan aðrir halda að ofbeldisfullir feður beiti henni til að losna undan ofbeldisákærum. Hins vegar má sjá ákveðinn kynjamun á því hvernig samfélagið bregst við foreldraútilokun þar sem flestir hafa eigin hugmyndir um hvernig kynin haga sér og geta því verið blindir á hegðun sem fer á móti þeim hugmyndum. Slík hlutdrægni getur einnig birst í réttarkerfinu og endurspeglar þá þessar samfélagslegu erkitýpur karla og kvenna. Útilokunarforeldrið á það síðan til að notfæra sér slíkar erkitýpur til að ná yfirhöndinni í forræðisdeilum.

Ákveðinn kynjamunur sést einnig á því hvaða aðferðir konur og karlar nota þegar þau beita foreldraútilokun en þær aðferðir eru í samræmi við það hvernig kynin beita einelti og annars konar ofbeldi. Konur eru líklegri til að nota óbeinar aðferðir á borð við að dreifa sögusögnum og grafa undan orðspori þess sem þær beita ofbeldi, á meðan karlar beita bæði beinum og óbeinum aðferðum. Það er því mjög mikilvægt að vera meðvitaður um þennan mun þegar verið er að meta hvort um foreldraútilokun sé að ræða. Þá þarf til að mynda að skoða hvort finna megi mynstur þvingunar og stjórnar í samskiptum foreldranna yfir lengri tíma þar sem foreldrar sem beita útilokun og heimilisofbeldi eru ekki að fara að gangast við því. Það sé þar af leiðandi ekki nóg að taka viðtöl við foreldrana heldur þyrfti auk þess að skoða til dæmis lögregluskýrslur, tölvupósta og textaskilaboð.

Það er mjög mikilvægt að greina foreldraútilokun sem fyrst og þá ekki síst vegna þeirra áhrifa sem hún getur haft á þann viðkvæma tíma í lífi hvers barns sem æskan er. Þá á sér stað uppbygging heilans en ef barn býr við einhvers konar ofbeldi eða heimilislíf þar sem útilokunarforeldri stjórnar hegðun þess, tilfinningum og sýn á heiminn þá nær heili barnsins ekki að mótast eðlilega. Það geti leitt til þess að barnið nái ekki að þróa með sér rökrétta hugsun og að það geti orðið mjög háð útilokunarforeldinu hvað alla þætti lífs síns varðar. Þegar foreldraútilokunin er orðin það alvarleg að barnið hafni öllu sambandi við útsetta foreldrið er það vísbending um að alvarlegt rof hafi orðið í geðheilsu þess. Langtímaáhrif slíks rofs geta verið grafalvarleg og því þarf að grípa sem fyrst inn í.

Harman leggur áherslu á að þegar unnið er með mál tengd börnum sé mjög mikilvægt að ákvörðun sé tekin út frá sönnunargögnum. Ef engin merki eru um ofbeldi eða vanrækslu en barnið vill þrátt fyrir það ekki hitta útsetta foreldrið þarf að kanna til hlítar hvort barnið geti verið vélað af hinu foreldrinu til að hafna umgengni. Börn eiga rétt á að umgangast báða foreldra sína þannig að ef annað foreldrið styður það ekki né viðurkennir að það sé að koma í veg fyrir umgengni, að þá er um ofbeldi að ræða gagnvart barninu. Þá er mjög mikilvægt að fagfólk stígi inn í og taki barnið úr aðstæðunum, að útilokunarforeldrið fái viðeigandi meðferð sem hjálpi því að breyta hegðun sinni og að unnið sé að því að bæta samband barnsins við útilokaða foreldrið. Það er eina leiðin til að leysa mál tengt foreldraútilokun, að stöðva útilokandi hegðun. Vandamálið sé hins vegar hvernig farið er að því að stöðva þessi mál í fæðingu. Það sé yfirleitt erfiðara að takast á við þau þegar foreldraútilokunin er orðin alvarleg þar sem börnin streitast yfirleitt meira á móti, eru lengur að jafna sig og lengur að losna undan áhrifum útilokunarforeldrisins.

Viðmælandi:
Ráðstefna/Viðburður:
Framleiðandi:
Efnisflokkur:

Fleiri myndbönd

2019-09-14 | PASG Philadelphia | Linda J. Gottlieb

PASG 2019 – Linda J. Gottlieb

Linda Gottlieb, fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi og löggildur klínískur félagsráðgjafi, fjallar um mikilvægi þess að fagfólk sem starfar við fjölskylduráðgjöf fái þjálfun í að greina birtingarmyndir foreldraútilokunar og þær aðferðir sem útilokunarforeldrar beita. Hún nefnir einnig mikilvægi þess að grípa fljótt inn í útilokun vegna neikvæðra áhrifa hennar á geðheilsu barna.

2021-09-09 | PASG Brussels | Ursula Kodjoe | Parenting Commitment

2021 PASG Brussels [Ursula Kodjoe] Parenting Commitment

Ursula Kodjoe sálfræðingur hefur unnið mikið með fjölskyldum sem eiga í vanda vegna skilnaðardeilna. Hún segir marga foreldra aldrei tala um það sem þeir óska börnum sínum og bendir á að það eru ekki bara börnin sem þurfa að þroskast, heldur foreldrarnir líka. Mikilvægt er að foreldrarnir fái nauðsynlegar upplýsingar um foreldrahlutverkið og séu frædd um þarfir nýfædda barnsins, með áherslu á tengslamyndun og tilfinningalegar þarfir.

Deila

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email